Allegro Suzukitónlistarskólinn

Allegro Suzukitónlistarskólinn er á 18. starfsári skólaárið 2015-2016. Meginmarkmið skólans er að veita ungum nemendum ásamt foreldrum þeirra vandaða kennslu með uppeldishugmyndir og kennslufræði japanska fiðluleikarans Shinichi Suzuki að leiðarljósi. Með því er verið að gefa foreldrum kost á:

1. Tónlistarnámi fyrir börn sín þar sem rækt er lögð við jákvæða samvinnu og samveru foreldra og barna. Verðskuldað hrós er hvatning til meiri árangurs!

2. Tónlistarnámi þar sem markviss hlustun er notuð til að auka tónlistarþroska barnanna og tónnæmi.

3. Tónlistarnámi þar sem áhersla er lögð á vandaða tækni og fallega tónmyndun.

4. Tónlistarnámi sem er byggt á þeirri meginhugsun að öll börn geti lært, en hvert og eitt á sínum hraða, allt frá fjögurra ára aldri.

Mottó skólans er: Agi -árangur - ánægja! Agi leiðir til árangurs, árangur vekur ánægju og eflir sjálfstraust! Skólastjóri er Kristinn Örn Kristinsson og yfirkennari Lilja Hjaltadóttir. Nánari upplýsingar um starfsemina er að finna undir námsgreinar og í Skólanámskrá.

Stofnun og saga

Skólinn var stofnaður í september 1998 í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar. Fyrst í stað voru engir fastráðnir kennarar og grasrótarsamtök foreldra og kennara ráku skólann í sameiningu. Eftir fimm ára baráttur veitti Reykjavíkurborg styrk fyrir 55 nemendum í grunnstigi. Þrátt fyrir að skólinn hafi kennt bæði á miðstigi og framhaldstigi, hafa styrkveitingar aldrei endurspeglað þá staðreynd.

Hollvinafélag Allegro

Hollvinafélagið styður við starfsemi Allegro, meðal annars með fjáröflun til tækjakaupa. Félagið hefur staðið fyrir opnum tímum, tónleikum og þorrablótum. Formaður er Finnur Kristinsson (finnur@landslag.is)