Blog Layout

Ánægjulegir tónleikar

nóv. 28, 2022

Það var mikil stemning og eftirvænting í lofti þegar fimm ungir einleikarar stigu á stokk og léku einleik með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í Seltjarnarneskirkju laugardaginn 26. nóvember síðastliðinn. Tvær ungar stúlkur nemendur Helgu Steinunnar, léku fyrst tvíkonsert Bachs, síðan kom Haraldur Áss, nemandi Lilju í Allegro sem lék fyrsta kafla úr konsert eftir Beriot. Þá sté á svið fyrrum nemandi í Allegro, Margrét Lára sem lék fyrsta kaflann í A-dúr fiðlukonsert Mozarts. Tónleikunum lauk síðan með einleik píanóleikara frá Tónskóla Sigursveins sem lék allan píanókonsert Haydns í D-dúr. Allir stóðu einleikararnir sig með mestu prýði og hafði stjórnandi hljómsveitarinnar, Oliver Kentish á orði að ekki þyrfti að kvíða skorti á góðu tónlistarfólki í framtíðinni miðað við þessa frammistöðu.  

Tónleikarnir voru haldnir í samvinnu við Nótuna, uppskeruhátíð tónlistarskólanna og voru nemendur valdir á samkeppnisgrundvelli á tónleikum Nótunnar í mars á þessu ári.

Deildu þessari frétt

Share by: