Nú er upphaf nýs skólaárs, skólaárið er 2023-2024 og við fögnum 25 ára afmæli skólans. Um leið fögnum við þeim árangri sem skólinn hefur skilað gegnum árin. Það var gaman að verða vitni að frábærum flutningi Mótettukórsins og hljómsveitarinnar Elju í Eldborgarsal Hörpu þar sem fyrrverandi nemandi skólans, Bjarni Frímann Bjarnason, hélt um stjórnvölinn og nokkrir fyrrverandi nemendur léku með í hljómsveitinni og skiptu með sér hlutverki konsertmeistara. Það eru forréttindi að hafa fengið að fylgjast með þessu frábæra listafólki taka sín fyrstu skref í tónlistarnáminu, öðlast traustan grunn og fylgjast með áframhaldandi þroska og frama þeirra í tónlistinni.
Við upphaf nýs skólaárs!
4. september 2023
Um leið og við gleðjumst yfir að þessi litli skóli okkar skuli hafa skilað svo drjúgum ávöxtum erum við um leið hugsi yfir að Reykjavíkurborg hyggist ekki lengur styrkja tónlistarskóla nema þeir hafi minnst 150 nemendur. Allegro Suzukitónlistarskóli hefur lengst af verið með 80-90 nemendur. Þetta hefur reyndar lengi verið á stefnuskránni hjá borginni, en undanþágur hafa verið veittar. Nú virðist borgin ætla að herða að og vonast til að skólar sameinist. Með því vonast þeir til að stjórnunarkostnaður sparist og meiri peningur fari í kennslu. Við höfum takmarkaða trú á því.