Blog Layout

Við upphaf nýs skólaárs!

sep. 04, 2023

Nú er upphaf nýs skólaárs, skólaárið er 2023-2024 og við fögnum 25 ára afmæli skólans. Um leið fögnum við þeim árangri sem skólinn hefur skilað gegnum árin. Það var gaman að verða vitni að frábærum flutningi Mótettukórsins og hljómsveitarinnar Elju í Eldborgarsal Hörpu þar sem fyrrverandi nemandi skólans, Bjarni Frímann Bjarnason, hélt um stjórnvölinn og nokkrir fyrrverandi nemendur léku með í hljómsveitinni og skiptu með sér hlutverki konsertmeistara. Það eru forréttindi að hafa fengið að fylgjast með þessu frábæra listafólki taka sín fyrstu skref í tónlistarnáminu, öðlast traustan grunn og fylgjast með áframhaldandi þroska og frama þeirra í tónlistinni.

Um leið og við gleðjumst yfir að þessi litli skóli okkar skuli hafa skilað svo drjúgum ávöxtum erum við um leið hugsi yfir að Reykjavíkurborg hyggist ekki lengur styrkja tónlistarskóla nema þeir hafi minnst 150 nemendur. Allegro Suzukitónlistarskóli hefur lengst af verið með 80-90 nemendur. Þetta hefur reyndar lengi verið á stefnuskránni hjá borginni, en undanþágur hafa verið veittar. Nú virðist borgin ætla að herða að og vonast til að skólar sameinist. Með því vonast þeir til að stjórnunarkostnaður sparist og meiri peningur fari í kennslu. Við höfum takmarkaða trú á því.

Í sumar var einn aðalkennara skólans og fyrrum skólastjóri og aðstoðarskólastjóri, Lilja Hjaltadóttir fiðlukennari, sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu. Það var skemmtileg viðurkenning á gjöfulu starfi, þar af síðustu 25 árin við Allegro Suzukitónlistarskólann. Það er öllum tónlistarkennurum mikils virði að starfi þeirra sé gefinn gaumur og það metið að verðleikum. Þarna er bæði skýr vitnisburður um að nemendur og aðstandendur meti vandað tónlistarnám mikils og að það sé nokkurs metið í þjóðfélaginu.

Við hjónin erum nýkomin frá Bryanston þar sem haldið er eitt stærsta Suzukinánámskeið Evrópu á vegum London Suzuki Group. Þar voru fjölmargir íslenskir nemendur og var gerður góður rómur að frammistöðu þeirra. Hugurinn leitaði til baka, þegar við fórum þangað fyrst með hóp íslenskra nemenda, þeir voru allir úr Allegro og við þekktum alla. 

Ef til vill hafa einhverjir gaman að fletta upp grein eftir Bjarna Frímann Karlsson, sem birtist í Mbl. 18. sept 2001: „Allegro-skólinn öðru sinni til Brjánstúna á Englandi”  En á myndinni hér til hliðar er einmitt sonur hans, Bjarni Frímann yngri, að leika Czardas eftir Monti ásamt Haraldi Sigfússyni á námskeiði í Bryanston.

Nú koma nemendur víða að og fjölmargir í þeim stóra hópi sem við ekki þekkjum. Það er ánægjulegt hvað þetta hefur undið upp á sig og hve vel nemendur frá Íslandi standa sig á erlendri grundu. 

Deildu þessari frétt

Share by: