Um Suzuki

Hver var Suzuki?

Japanski fiðlukennarinn Shinichi Suzuki lést þann 26. janúar 1998 á hundraðasta aldursári. Hans er nú minnst um allan heim sem eins af stórmennum tuttugustu aldarinnar, fyrir hugsjónir sínar, viðhorf til uppeldismála og víðtæk áhrif á tónlistarkennslu.

Faðir hans var hljóðfærasmiður og smíðaði fiðlur. Suzuki kenndi sjálfum sér að spila á fiðlu með að hlusta á hljómplötu með Mischa Elmann. Síðan var hann sendur til náms og síðast til Berlín árið 1923. Þar lærði hann fiðluleik hjá Karli Klingler og fann konuefnið sitt, Waltraud sem var söngkona og þau fluttu til Japan 1929.

Suzuki hóf að kenna og 1946 stofnaði hann tónlistarskóla í Matsumoto, sem fékk síðar nafnið Talent Education Research Institute. Þar þróaði hann aðferð sína næstu árin og upp úr 1960 fór hróður hans sem kennara að berast út um heiminn.

Móðurmálsaðferðin - einkenni


Börnin eru látin hlusta á námsefnið og læra það eftir eyra.

Það er mælt með því að hlustað sé núna á námsefni sem börnin koma til með að læra efir þrjú ár! Barn sem aldrei heyrir talmál lærir ekki að tala. Barn sem aldrei heyrir góða tónlist þroskar ekki með sér tónlistarhæfileika!


Gott er að byrja snemma

Gott er að byrja þriggja til fimm ára, en hlustun getur hafist strax við fæðingu, jafnvel fyrr!

Aður en formlegir tímar hefjast eru börnin látin fylgjast með öðrum börnum spila og fara í spilatíma hjá öðrum börnum til að vekja áhuga þeirra og skapa öryggiskennd


Foreldrar verða að koma með í alla tíma

Þeir skrá skrá heimaverkefni, æfa með barninu heima daglega og sjá til þess að námsefnið hljómi í umhverfi barnsins daglega, rétt eins og móðurmálið.


Námið hefst á foreldrafræðslu

Þar læra foreldrarnir um aðferðina og helstu handtök við hljóðfæraleikinn..

Foreldrar verða að skapa jákvætt umhverfi til námsins og hafa ánægju af að vinna með barninu. Jákvætt umhverfi,tiltrú, uppörvun og hrós fyrir það sem vel er gert skiptir sköpum varðandi námsárangur.


Endurtekningar

Endurteknar æfingar eru nýttar til að byggja upp tækni sem verður eðlileg og rétt án umhugsunar eða áreynslu. Börn hafa gaman af endurtaka það sem þau geta!


Upprifjun

Stöðug upprifjun er iðkuð, hún eykur færni og þjálfar minni, löngu lærð verkefni eru notuð til að kenna nýja tækni

Lestur er kenndur þegar nemandinn er búinn að ná þannig valdi á hljóðfærinu að hann þurfi ekki að einbeita sér að hlutum eins og handstöðu eða eðlilegri tónmyndun, og hún haldist þó einbeitingunni sé beint að öðru


Lengd kennslustunda

Hún ræðst af einbeitingargetu nemandans

Einbeitingu barnsins er beint að einum hlut í einu

Námshraði og yfirferð ræðst af barninu sjálfu


Áhersla er lögð á góða tónmyndun

"Tónninn er sál tónlistarinnar" er haft eftir Suzuki.

Herminám, hlutirnir eru sýndir fremur en útskýrðir, útskýringar eru fyrir fullorðna! Á sama hátt læra börnin að tala og ganga!


Hóptímar

Í hóptímum er félagslegi þátturinn virkjaður, ýmis tækni- og túlkunaratriði eru þjálfuð í lögum sem nemendur kunna vel, gjarna með leikjum.


Tónleikar og námskeið

Hluti af aðferðinni er að koma fram á tónleikum og taka þátt í námskeiðum, sameiginlegt alþjóðlegt námsefni gerir nemendum og foreldrum auðvelt að taka þátt í suzukinámskeiðum hvar sem er í heiminum.


Share by: