Útskriftir úr bókum
Útskriftir úr bókum er viðburður þar sem nemendur sýna færni sína og glaðst er saman yfir góðum árangri og tilteknum námsáfanga. Markmiðið er ekki bara að geta spilað lögin í bókinni heldur einnig að geta gert það vel og hafa náð meginmarkmiðum bókarinnar varðandi færni jafnt í tækni sem túlkun.
Í Suzuki námi útskrifast nemendur úr hverri bók fyrir sig. Útskriftarferlið er í nokkrum þrepum. Fyrst þarf nemandinn að kunna öll lögin í bókinni vel utan að og geta sýnt fram á það með að leika öll lögin fyrir kennara sinn í tíma. Auk þess þarf hann að vera kominn vel inn í næstu bók á eftir.
Þetta fyrirkomulag kemur frá Suzuki sjálfum. Hann fékk upptökur frá öllum sem voru að útskrifast og skrifaði umsagnir og sendi til baka. Í Allegro höfum við svipaðan hátt á útskriftar fyrirkomulaginu. Nemendur draga á milli ákveðinna laga, senda inn upptökur af þeim, ásamt útskriftarlaginu úr viðkomandi bók og fá umsögn frá öðrum kennara.
Lokahnykkur útskriftar eru útskriftartónleikar þar sem nemendur leika lögin sín og fá síðan í lok tónleika afhent útskriftarskírteini og blóm. Síðar fá nemendur einnig umsögn um útskriftar tónleikana.